Laugardagur, 8. nóvember 2008
Afturgengnar Miðaldir
Fljótlega eftir landnám Íslands voru þjóðinni sett lög, er sennilega voru þau manneskjulegustu sem þekktust í Norður-Evrópu. Landinu var skipt upp í goðorð og voru goðarnir 36. Goðarnir báru ábyrgð á lögunum og sáu um framkvæmd þeirra. Þeir settu niður deilur á sínu svæði, svöruðu fyrir og vörðu þingmenn sína og sáu um að dómun væri fullnægt. Hér var vísir að lýðræði og voru lögin enn bætt á 1000 ára aldamótnum.
Næstu 200 árin voru mjög friðsöm á okkar unga landi. Síðan skeður það að við flytjum inn frumstæðan kapitalisma, sem Noregskonungar brúkuðu og hinum ungu höfðingjasonum á vestan- og norðanverðu landinu þótti eftirsóknarverður. Auðugir menn fóru að kaupa goðorð, völd og áhrif í ströngu kapphlaupi við kirkjuna.
Á 13. öld voru lýðræðisáhrif horfin að mestu, goðorðin komin á fáar hendur, framkvæmd laganna og viðskiptasamböndin. Kirkjan hlekkjaði fátæklingana í bókstaflegri merkingu, við kirkjudyr fyrir óhlíðni við yfirvöld þessa heims og annars. Þrátt fyrir það að friðsamir menn reyndu að milda áhrif kapitalismans varð við ekkert ráðið og Ísland tapaði sjálfstæði sínu.
Nú höfum við stórt hundrað þingmanna og aðstoðarmanna. Meiri hluti þeirra hverju sinni semur lög og leggur fram. Minni hlutinn er áhrifalítill, situr og fylgist með þingstörfum þegar þeir hafa tíma til. Allir samþykktu þeir hins vegar lög um eftirlaun þingmanna sem eru í engu samræmi við eftirlaun annarra landsmanna. Þeir lofuðu að breyta þessum lögum, en bíða í reynd eftir því, að loforðið gleymist í daganna önn, eða drukkni í voveiflegum atburðum.
Það hefur nú gerst. Við höfum misst fjárræði, efnahagslegt sjálfstæði eins og á miðöldum. Ætla þingmenn enn að ganga á undan með lélegt eftirdæmi?
Spurning brennur á vörum flestra Íslendinga: Ætlar ríkisstjórnin að láta hina ungu foringja í fjármálalífinu sleppa með illan feng sinn og kaupréttarsamininga?
Jóhannes Eiríksson
Morgunblaðið, 12. október.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.