Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hið óhefta flæði fjármagns

Það ríkir svolítil deyfð í litla skrýtna eyríkinu í Ballarhafi.   Einu fegursta land í heimi. Himininn er heiður og klár. Græni liturinn djúpur, blátt svo blátt.   Flestir eru svo ríkir í eyríkinu. Ríkidæmið hefur samt ekki gert þessa eyjarskeggja hamingjusama. Öðru nær!   Þegar vorar fyllast vegir landsins af jeppum. Það kemur til af því að maðurinn sem erfði Keflavíkurflugvöll með gögnum og gæðum, ásamt nokkrum viðskiptafélögum sínum, gerði svolítið breik hér um árið! Hann fékk félaga sína í Flokknum til þess að létta óbærilegum tollum og álögum af stórum jeppum. Þess vegna er þeir mun ódýrari hér en í öðrum löndum og fjármunir streyma úr landi.    Þegar Montbatten lávarður fór með hinar hraðskreiðu skriðdrekasveitir sínar á bak við víglínu Þjóðverja var allt undir kontrol og Bretarnir nýttu hið góða vegakerfi Hitlers vel, enda mjög bensínsparandi. Í litla eyríkinu fagra er allt annað uppi. Hinar veglausu óbyggðir fyllast af öskrandi jeppum hvert vor, sem spæna upp veikburða gróðurlendið, en göngufólk á fótum fjör að launa.Olíufélögin eru alsæl. Fjármunir streyma úr landi.   Milli ferða er dundað sér í 100 fermetra heilsárs bústöðum með heitum pottum og flatskjá. Hvert einasta snitti er útlent í þessum kofum. Fjármunir streyma úr landi.   Jeppaferðin gerði þó ekki eyjaskeggjana alsæla lengi, enda sumarið undra fljótt að renna sitt skeið. Þá kemur sér vel fyrir þá að eiga flugvélar. Þær eru að vísu í nokkurra milljarða skuld. Það gerir ekkert til því að lífsmottó í litla landinu er: ,,Er á meðan er, að veröldin hampar mér'' og eyjarskeggjarnir fljúga til fjarlægra landa og eru allsstaðar aufúsugestir. Og fjármunir streyma úr landi.   Svo var það eitt janúarkvöld, að nokkrir þessara moldríku eyjarskeggja hittust á barnum á Hotel Nordica. Þeir voru svolítið leiðir á lífinu og þetta kvöld var sérlega dimmt og drungalegt. Þarna kom upp hugmyndin um að ,,ræna'' banka í Bretlandi og Hollandi. Þeir gerðu það með elegans.   Bretarnir urðu ævareiðir!    Víkingarnir urður mjög hissa á viðbrögðum tjallans, sem annars er þekktastur fyrir að finna ekki meinta bankaræningja fyrr en þýfinu hefur verið eytt.    Sú varð nú raunar reyndin á að þessu sinni.


Landhreinsun

 Seint á 9. öld var nýju ákvæði skotið inn í lög hins unga þjóðveldis Íslands. Þetta nýja lagaákvæði átti að draga úr vígaferlum og auka réttaröryggi. Það var nefnt fjörbaugsgarður og var hugsað til landhreinsunar. Gunnar á Hlíðarenda var t.d. dæmdur í fjörbaugsgarð fyrir vígaferli og férán. Gunnar fór ekki og goðorðsmenn á Suðurlandi gerðu skyldu sína.

  Sá sem dæmdur var í fjörbaugsgarð var skyldaður til þess að fara úr landi innan þriggja sumra frá því dómur féll og dveljast fjarri landinu í þrjú ár og þótti vel sloppið. Gunnar fór ekki.

  Nú er skollin á okkur fjármálakreppa og ekki auðgert að finna sökudólg, þeir eru vafalaust margir. Upp hafa samt komið undarleg tilfelli í bönkunum sálugu. Háir starfsmenn í launum hafa stundað það að kaupa hlutabréf þegar uppsveiflan var sem mest, en láðist að borga bréfin. Þeir vildu semsé hirða ágóða, en eftirlétu viðskiptavinunum tapið. Ég sem hélt að áhættan gæfi fjárhættuspilurum kikk. Þessir menn (og konur) voru reyndar ekki að spila fjárhættuspil, ef fréttamiðlar fara rétt með. Þeir voru að ræna banka.

  Sjálfur þekki ég ung hjón með fjögur ung börn, sem töpuðu á hlutabréfum ævisparnaði sínum, sem átti að fara í stærra húsnæði fyrir krílin litlu. Slík dæmi eru mörg. Þorgerður Katrín, hinn geðþekki ráðherra og maður hennar töpuðu heilum handboltaferli, en standa sem betur fer allvel eftir. Auðvitað er ég á móti dauðarefsingum, en ætli Fjörbaugsgarður hafi verið úr lögum leiddur, að öðru leiti?  Nú langar mig að spyrja lögfróða menn:


Afturgengnar Miðaldir

Fljótlega eftir landnám Íslands voru þjóðinni sett lög, er sennilega voru þau manneskjulegustu sem þekktust í Norður-Evrópu. Landinu var skipt upp í goðorð og voru goðarnir 36. Goðarnir báru ábyrgð á lögunum og sáu um framkvæmd þeirra. Þeir settu niður deilur á sínu svæði, svöruðu fyrir og vörðu þingmenn sína og sáu um að dómun væri fullnægt. Hér var vísir að lýðræði og voru lögin enn bætt á 1000 ára aldamótnum.  

  Næstu 200 árin voru mjög friðsöm á okkar unga landi. Síðan skeður það að við flytjum inn frumstæðan kapitalisma, sem Noregskonungar brúkuðu og hinum ungu höfðingjasonum á vestan- og norðanverðu landinu þótti eftirsóknarverður. Auðugir menn fóru að kaupa goðorð, völd og áhrif í ströngu kapphlaupi við kirkjuna.

  Á 13. öld voru lýðræðisáhrif horfin að mestu, goðorðin komin á fáar hendur, framkvæmd laganna og viðskiptasamböndin. Kirkjan hlekkjaði fátæklingana í bókstaflegri merkingu, við kirkjudyr fyrir óhlíðni við yfirvöld þessa heims og annars. Þrátt fyrir það að friðsamir menn reyndu að milda áhrif kapitalismans varð við ekkert ráðið og Ísland tapaði sjálfstæði sínu.

  Nú höfum við stórt hundrað þingmanna og aðstoðarmanna. Meiri hluti þeirra hverju sinni semur lög og leggur fram. Minni hlutinn er áhrifalítill, situr og fylgist með þingstörfum þegar þeir hafa tíma til. Allir samþykktu þeir hins vegar lög um eftirlaun þingmanna sem eru í engu samræmi við eftirlaun annarra landsmanna. Þeir lofuðu að breyta þessum lögum, en bíða í reynd eftir því, að loforðið gleymist í daganna önn, eða drukkni í voveiflegum atburðum.

  Það hefur nú gerst. Við höfum misst fjárræði, efnahagslegt sjálfstæði eins og á miðöldum. Ætla þingmenn enn að ganga á undan með lélegt eftirdæmi? 

  Spurning brennur á vörum flestra Íslendinga: Ætlar ríkisstjórnin að láta hina ungu foringja í fjármálalífinu sleppa með illan feng sinn og kaupréttarsamininga?

Jóhannes Eiríksson

Morgunblaðið, 12. október.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband