Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Leikhús fáránleikans!

Umhverfið í pólitíkinni er skelfilegt. Í sumum nýju framboðunum birtast menn sem ég þyrði ekki að kaupa notaðan bíl af, hvað þá meir!  Aðrir hafa ekki unnið ærlegt handtak í mörg ár. Forystumenn þora ekki að standa skýlaust við stefnu flokka sinna og tala eins og séu með poka yfir hausnum. Styrkjaspillingin er ekki bundin við einn flokk. Helst að VG séu hreinir.Manni líður eins og leikhúsgesti. Farsa er nýlokið. Stykkið var óvenjulegt að því leyti áhorfendur höfðu drukkið sig útúr, en leikendurnir rændu hópinn áður en víman rann af þeim. Leikhússtjórnin hefur nú ákveðið að gefa gestunum heimilisafslátt af næstu sýningu sem engin veit hvort verður, hvar eða hvenær.

Hver veit það sem allir vita?

   Margt er skrifað og skrafað um styrkveitingarnar til stjórnmálaflokkanna. Mér finnst liggja í augum uppi í ríki sem ekki er fullburða lýðræðisríki, að valdamesti stjórnmálaflokkurinn fái hæstu styrkina frá bisnesmönnum! Þannig er það í Nigeriu og Pakistan, svo ég taki öfgafull dæmi. Nú er spurt hverjir hafi stjórnað fjáröflun Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Undarleg spurning! Þetta vita jú allir. Fyrir utan að það skiptir engu máli.

   Eitt er þessu tengt sem enginn talar um. Hvernig í andsk. stendur á því að íslensku bankarnir taka út af peningamarkaðsreikningum fólks eða öðrum innistæðum til að milda og deyfa stjórnmálaöflin. Er það siðferðilega verjandi að taka við slíku fé burt séð frá upphæðum?


300 árum síðar

Í byrjun 18. aldar var kreppa á landi hér jafnt af völdum manna og óblíðrar náttúru. Arngrímur lærði sem þá var skólastjóri suður á Lálandi skrifaði mikið rit um kreppuna og endurreisn. Taldi þessi lærdóms maður að einokun í siglingum og verslun til landsins væri skaðvaldurinn. Þá hafði konungur þó ekki gengið svo langt að gefa fáum einstaklingum fiskinn í sjónum. Það var aldrei gert fyrr fullkomlega fyrr en á öld nýfrjálshyggjunnar. Arngrímur taldi nauðsynlegt að sporna við því að fjármunir væru fluttir úr landi. Þeir þyrftu að safnast fyrir í landinu og eiga þar heimili til eflingar þarflegum fyrirtækjum.

Trúlega hefur hinum mæta manni ekki dottið í hug að hægt væri að safna saman peningum heillar þjóðar í peningageymslur, svokallaða banka og stela þaðan í heilu lagi, en þjóðin sæti eftir í heimalagaðri skuldasúpu. 

Ýmsir menn leituðu þá svipaðra lausna og menn nú horfa til. Mikilhæfasti lögmaður landsins á 18. öld lagði til að kaupmenn flyttu förumenn og fátæklinga á skipum sínum til vestur-Indía og myndi þurfamannaplágunni létta á þremur árum.

Íslenskir athafnamenn flæma landa sína úr starfi. Kjör þeirra eru of góð. Engin hörgull á ,,pólverjum'' sem ekki spyrja um kaup og kjör.


Enga hlaðhunda takk

Á borðum þessarar ríkisstjórnar eru stórar hreingerningar og á miklu ríður að unnið verði fljótt og vel svo að bakteríurnar geri ekki húsið óbyggilegt. Fulltrúar stórbændanna áttu að styðja verkið, en hafa nú týnt lyklunum og stöðvað hreingerningafólkið. Valdsmenn stórbændaflokksins voru að vísu í fararbroddi útrásarinnar og eiga kannski orðið meiri hagsmuni á eyjum í Karabíahafinu en hér í fámenninu.

Áríðandi er fyrir þjóðina að láta ekki snoppufríða og mjúkmála leiguliða Alfreðanna og Þórólfanna, eða Dóranna, smjúga inná sig. Í kosningunum að vori skulum við hvorki kjósa húsbændurna eða hlaðhundana.


Hver er Davíð?

Ung kona vék sér að mér í fiskbúðinni og sagði: ,,Veistu hver Davíð er?''  Ég þóttist vita það, seðlabankastjóri auðvitað! ,,Nei,'' sagði stúlkan og horfði á mig brúnum augum. Davíð er Golíat!

Ég var einmitt nýbúinn að lesa stuttan, kjarnyrtan leiðara Moggans og velti því fyrir mér hvort þeirra hefði séð þetta fyrr, leiðarahöfundurinn eða stúlkan.

 


Efnahagsmál

Í síðasta bloggi mínu birti ég ljóð eftir skáld frá miðri 20. öld. Ég nefndi ekki nafnið af ásettu ráði. Einn bloggari, Sigurður Guðjónsson, þekkti höfundinn og kom mér það ekki á óvart. Nú birti ég annað ljóð eftir sama höfund sem ekki á síður við í dag og verður fróðlegt að frétta hvort einhver margfróður þekkir skáldið:

EFNAHAGSMÁL

hleypur kvikfjárræktin af sér hornin

yfir hersveitir landbúnaðarins

 

setja hraðfrystihúsin við sjávarútveginn

heimsmet í fjárdrætti á hlaupareikning

 

græðir verslunin sóttkveikjurnar

þegar grefur í gjaldþrota verðbólgu

 

hittir iðnaðurinn naglann á höfuðið

með fjárfestingu líkkistunnar

 

fara bifreiðar fasteignir

húsmæður meyjar

menning og frelsi

á nauðungaruppboð

 

Jónas E. Svafár

 

Það er spennandi að frétta hvort framsókn tekst að hlaupa hornin af samfylkingunni á glötunarbarmi upphefðarinnar.


Skáldin eru skyggn!

Er maður hugsar um og rifjar upp ráðleysi og sóun undangenginna ára undrast maður mest þá blindu sem ríkti í þjóðfélaginu og meðvirkni. Einn daginn rifjaðist upp fyrir mér ljóð, ort fyrir svona 50 árum.   Skáldið var einn sérstæðasti persónuleiki í skáldahópi þess tíma og eru mörg ljóða hans mjög athyglisverð og öll frumleg, svo ekkert núlifandi skálda nálgast hann.

Klettabelti fjallkonunnar

ráðherra viðskiptanna telur

að vegurinn til velgengni sé

að fórna efnahag og sjálfstæði

með köldu blóði eins og þorskur

 

sá frumstæði í forsætinu segir

að trúin á landi sé lík

og trúin á stokka og steina

 

þeir nota gjaldeyri ríkiskassans

til að drepa niður framleiðsluna

 

þeir eru að reisa við erlenda stjórn

yfir klettabelti fjallkonunnar

 

   Vitanlega er skáldið ekki að tala um þá sem nú eru eða voru við stjórn, en líkingin er sláandi og auðlyndirnar eru sannarlega í hættu nú og öllu frekar en á dögum skáldsins.


Nýr gallagripur

Þegar ég var drengur kom ég stundum á heimili þar sem var píanó. Sjálfspilandi píanó. Heldur þreytandi fyrirbæri! S.l. sunnudag mætti ég á fund hjá flokknum ,,mínum'' ásamt fleiri gömlum skipsfélögum, til þess að heyra veðurhorfur á sjónum sem þjóðarskútan okkar siglir á. Þrír yfirmenn mættu. Sá fyrsti talaði um að við gömlu hásetarnir mættum alveg vera um borð og fengjum örugglega að borða líka. Annar talaði um veikindi sín og var það fróðlegt. Þriðji yfirmaðurinn var sá sem sá um bókhaldið. Fundarmenn vissu að skútan átti ekki fyrir hafnargjöldunum og tæpast fyrir nýjum kosti. En hvað skeður, inn á sviðið var fært sjálfspilandi píanó, nýsmíðað og glæsilegt, en hafði einn galla! Það spilaði alltaf sama lagið.

Á vogarskálunum!

   Athygli vakti í dag fyrirmyndar framkoma lögreglunnar og skynsamleg. Mjög er búið að níða dómsmálaráðherra vorn Björn Bjarnason. Honum hafa verið kennd mistök í löggæslu á þessum ,,ófriðartímum''. Hvernig væri að þakka honum nú! Batnandi lögreglu er best að lifa!

   Og enn: Ekki er Samfylkingunni sæmd að klastrinu við eftirlaunaósómann! Við getum ekki kennt Sjálfstæðisflokknum um, það er jú Samfylkingin sem er félagshyggjuliðið, eða hvað?


Samþjöppuð spilling!

Geir Haarde hefur tekist með lagni að fá Samfylkinguna til þess að fallast á að festa í sessi eftirlaunalögin með léttum breytingum! Ekki áfellist ég forsætisráðherra vorn; hann er staðfastur sinni hugsjón.

 Um Samfylkinguna má segja: ,,Það sem helst hún varast vann, varð þó að koma yfir hana.'' Þetta er stórmál í samskiptum fólksins við  flokkinn. Lífeyrissjóðakerfið er heilagt, þó að það hafi ekki fallið af himni ofan. Útúrdúrar stjórnmálastéttarinnar veikja kerfið. 

Forystuparinu í Samfylkingunni munum við eftir ungu og fersku og svo róttæku að hörðustu ultrakommar fölnuðu. Það sem á milli ber, eru ekki bara ein aldamót, heldur græðgisvæðing hugarfarsins sem smitar upp í hið háa Alþingi þar sem sitja tvöfalt fleiri þingmenn, en nokkur skynsemi er í, með tvöfalt fleiri aðstoðarmenn en efni standa til. Þetta lið hefur lagt undir sig miðbæinn í harðri samkeppni við bankaliðið!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband